149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

frestun töku lífeyris.

850. mál
[16:55]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra alveg prýðisræðu. Það sem gladdi mig mest í þeirri ræðu er það að hann tók undir þau sjónarmið sem fram koma hjá okkur Miðflokksmönnum varðandi frumvarp sem við höfum lagt fram á Alþingi og liggur nú til meðferðar hjá efnahags- og viðskiptanefnd um að leyfilegur hámarksaldur ríkisstarfsmanna verði hækkaður í 73 ár.

Þetta mál er búið að koma fram á tveimur þingum og hefur fengið vandaða meðferð í efnahags- og viðskiptanefnd. Okkur er ekkert að vanbúnaði, kæri ráðherra, að samþykkja það sem fyrsta skref því að auðvitað þarf, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra, að breyta ýmsum lögum öðrum til að það verði markvissara. En þetta er mjög gott fyrsta skref og það er mjög einfalt. Eins og ég sagði liggur málið tilbúið til 2. umr. í efnahags- og viðskiptanefnd og ekkert því til fyrirstöðu að fá það inn í þingsal. Ég fagna áhuga fjármálaráðherra á málinu og tel að hann sé samþykkur því. Ég (Forseti hringir.) myndi fagna því mjög ef það kæmi fram þegar málið kemur til 2. umr.