149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

frestun töku lífeyris.

850. mál
[16:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir svörin. Til að byrja með vil ég segja varðandi það að ekki sé enn tímabært að leggja í vinnu um hækkunina, eins og kom fram í lokaorðum hæstv. ráðherra, að markmiðin eru samt sett í fjármálaáætlun. Ég velti því fyrir mér hvenær tímabært sé að fara í þá vinnu ef ekki á einmitt tíma áætlunarinnar.

Ég get tekið undir þau orð að hafa frelsi til að ákveða ellilífeyristökualdurinn. Ég get líka tekið undir frumvarp Miðflokksins hvað þetta varðar og velti fyrir mér af hverju takmarkið þarf að vera 73 ára, af hverju ekki að fjarlægja 70 yfirleitt? Þetta snýst í rauninni bara um að auka möguleikana fyrir þá sem geta og stilla hvenær réttindin til töku lífeyris hefjast, óháð því hvenær fólk vill hætta að starfa, og hvernig fólk hagar því.

Það var áhugavert að heyra af hinu víðtækara vandamáli með t.d. lögreglumenn og því um líkt og líka að B-deildin sé vandamál. Hún virðist vera gegnumgangandi vandamál þegar kemur að fjármálum hins opinbera. Það er spurning hvað sé mögulega hægt að gera í því annað en að klára að borga eða að fólk klári í þeirri deild, því að þau réttindi sem fólk öðlaðist þar eru mjög langlíf, ólíkt starfsævi fólks.