149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

frestun töku lífeyris.

850. mál
[16:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Já, það eru fjölmörg álitamál sem við þurfum að taka afstöðu til en við höfum þau markmið vegna þess að við teljum að þau séu eftirsóknarverð. Eins og ég rakti í máli mínu tel ég að við getum bætt heilsu og félagslega stöðu jafnvel og lífshamingju þeirra sem reka sig á þetta þak.

Ég nefndi áðan að við sæjum á þróuninni að fleiri og fleiri væru að taka lífeyrisréttindi sín út fyrr og að það munaði á einungis tíu árum heilu starfsári hjá þeim sem fara á fullan lífeyri.

Mig langaði af því tilefni að vekja athygli á upplýsingum sem við höfum inni á tekjusögunni um lífeyrissjóðstekjur þeirra sem eru 66 ára og eldri, þ.e. 66 plús eins og það er skilgreint í tekjusögunni. Þar eru tölurnar birtar á föstu verðlagi og við sjáum af því að skoða allar tekjutíundir saman og ef við horfum yfir landið allt að hjá sambúðaraðilum hafa lífeyrissjóðstekjurnar verið að vaxa alveg gríðarlega hratt á viðmiðunartímabilinu, sem er reyndar alveg aftur til ársins 1991. Menn ættu að kynna sér þær tölur. Á þeim tíma, árið 1991, samkvæmt gögnunum, eru sambúðaraðilar að meðaltali með vel innan við 100.000 kr. í lífeyristekjur á verðlagi ársins 2017, en það nær 200.000 kr. markinu upp úr og eftir aldamót og síðan skríða lífeyrissjóðstekjur sambúðaraðila mjög hátt upp á við á undanförnum árum, fara (Forseti hringir.) frá eftirhrunsárunum úr 250.000 og upp í um og yfir 350.000. Þetta er breytingin sem hefur orðið á tiltölulega skömmum tíma og það er ekki nema von (Forseti hringir.) að það birtist í aðeins breyttri hegðun.