149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:21]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þær breytingar á löggjöf um þungunarrof sem nú eru greidd atkvæði um marka þáttaskil. Þau þáttaskil að með þessum nýju lögum fá konur á Íslandi loks fullan sjálfsákvörðunarrétt um hvort þær vilji ganga með og eiga barn. Málið snýst um öryggi og frelsi kvenna að þessu leyti og löngu tímabært að þessi breyting verði gerð og lögin færð til 21. aldarinnar.

Ég vil þakka hv. velferðarnefnd fyrir góða vinnu og ekki síst hv. formanni nefndarinnar og framsögumanni málsins, Halldóru Mogensen, fyrir að halda einkar vel á þessu flókna máli. Mig langar líka til að þakka kvennahreyfingunni langa baráttu, baráttufólki fyrir kvenfrelsi fyrr og síðar, grasrótarhreyfingum, fólki innan þings og utan, þeim sem eru á pöllunum hér í dag og standa fyrir þessi sjónarmið.

Mig langar líka að þakka öllum þeim konum sem hafa stigið fram og deilt sínum sögum, bæði opinberlega og við mig persónulega.

Þetta er löng vegferð en í dag erum við að eignast eina framsæknustu löggjöf að því er varðar sjálfsákvörðunarrétt kvenna í heiminum. Þess vegna er þetta gleðidagur. Með breiðum stuðningi í þinginu sýnum við þann skýra vilja að við viljum áfram vera í fremstu röð í heiminum varðandi stöðu kvenna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)