149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:25]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta frumvarp kemur ekki skyndilega af himnum ofan heldur byggir á ítarlegri umræðu og vinnu, skýrslu sem byrjað var að vinna í tíð hæstv. ráðherra Kristjáns Þórs Júlíussonar og var skilað til hæstv. ráðherra Óttars Proppés, vinnu sem átti að skila því að endurskoða þungunarrofslöggjöfina. Nú hefur Alþingi lokið umfjöllun sinni um málið. Ég tel þá umfjöllun góða og nefndina hafa staðið sig vel.

Ég styð þetta frumvarp heils hugar því að það er hluti af stærri hugmyndafræði um að útvíkka frelsi og réttindi fólks. Ég treysti konum til að fara vel með þetta frelsi og umgangast það af ábyrgð. En við skulum hafa það í huga að konan verður ekki frjáls nema hún ráði yfir eigin líkama. Þetta frumvarp er skref í þá átt að gera konur í þessu landi frjálsari og ég styð það heils hugar og hefði sjálf stutt það að hafa engin tímamörk. En ég tel að þetta frumvarp sé ákveðin málamiðlun milli sjónarmiða og mun styðja það því ég tel það gríðarlegt framfaraskref fyrir frelsi einstaklingsins. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)