149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:36]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um sjálfsákvörðunarrétt kvenna. Sú breytingartillaga um 20 vikur sem hér er sett fram er vafalaust sett fram af góðum hug til að freista þess að miðla málum, en með samþykkt hennar væri hins vegar verið að skerða möguleika fólks í afar erfiðum aðstæðum til að taka ákvarðanir um eigin hag miðað við núverandi framkvæmd 2. og 3. mgr. 10. gr. núverandi laga.

Í umræðu í velferðarnefnd kom fram það sjónarmið, m.a. með tilliti til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, að ófært væri að skrifa inn undanþágur eftir 18. eða 20. viku nema lenda í gryfju fötlunarfordóma. Lending meiri hluta nefndarinnar í þessu erfiða máli er sú sem kemst næst því að sætta ólík sjónarmið.

Því segi ég já.