149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:38]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við greiðum senn atkvæði um frumvarp sem skiptir þjóðinni upp í andstæðar fylkingar, sögulegasta frumvarp í seinni tíð að öllum líkindum og sem snýr að jafnrétti og kvenfrelsi. Inn í það fléttast trúarleg viðhorf, lögfræði, siðfræði og læknisfræði og önnur samfélagsleg viðfangsefni af ýmsum toga. Álitamálin eru margvísleg og það kemur ekki á óvart, eðli málsins samkvæmt, en þingflokkur Samfylkingarinnar styður þetta tímamótafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.

Í lokin vil ég árétta, virðulegur forseti, að um málið hefur verið fjallað ítarlega í velferðarnefnd á vandaðan og faglegan hátt. Formaður nefndarinnar, Halldóra Mogensen, lýsti því yfir strax þegar málið kom inn að hún hygðist gefa því góðan tíma eins og þörf væri á, kalla til gesti og efna til samtals í nefndinni, afla allra upplýsinga samkvæmt óskum nefndarmanna. Við þetta var staðið og ég þakka formanni fyrir góða verkstjórn og öðrum samnefndarmönnum fyrir yfirvegaða nálgun um viðkvæmt mál sem vonandi fær farsæla niðurstöðu í dag.