149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:40]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það sætir furðu hvernig þetta mál hefur verið rekið áfram og það gerir líka framkoma margra stuðningsmanna þessa máls í garð þeirra sem hafa haft efasemdir um það, haft efasemdir um að það væri rétt að reyna að setja einhvers konar heimsmet í því hversu lengi mætti hafa óheftar fóstureyðingar á Íslandi. Það hefur verið hlegið að mönnum, hæðst að þeim og á allan hátt gert lítið úr því að menn skuli vilja gjalda varhuga við slíkri breytingu.

Rökin hafa heldur ekki haldið því að ég efast um að nokkur þingmaður efist um sjálfsákvörðunarrétt kvenna. Ef þetta snerist eingöngu um yfirráð yfir lífi sem er innan líkama annarrar manneskju ætti það sama við um sjö mánuði, átta mánuði og níu mánuði. Svo lýsti reyndar hæstv. forsætisráðherra því yfir á mjög sláandi hátt hér áðan að ráðherrann hefði ekki viljað hafa nein tímamörk. Það er þá reyndar í samræmi við þennan rökstuðning en umræðan hefur aldrei fengið að snúast um það hver væru hin eðlilegu tímamörk.