149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:42]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég veit að þetta mál er viðkvæmt. Það snertir á mörgum mannlegum hliðum. En staðan í dag er sú að 96% þungunarrofa fara fram fyrir 12. viku, 3% fyrir 16. viku og aðeins 1% eftir þann tíma. Það sem um er deilt eru afar fá tilvik. Það er engri konu léttvæg ákvörðun að fara seint í þungunarrof. Það þori ég að fullyrða. Framkvæmdin er við sama tímamark í dag, en það er nefnd sem tekur þá ákvörðun fyrir konuna. Það er sannfæring mín, upp að ákveðnu marki þar sem við metum að fóstur hafi sjálfstæðan rétt, að ég tel einu réttu leiðina vera þá að konan taki þá ákvörðun sjálf. Ástæður geta verið margvíslegar, en það er ógjörningur að setja slíkt í löggjöf og ég treysti konum til að taka þá erfiðu ákvörðun. Hennar líf, hennar líkami, hennar ákvörðun.

Umræðan hefur verið harkaleg og löggjöfin er gömul og staða og réttindi kvenna hafa blessunarlega breyst síðan lögin voru sett, en að tala um vanvirðingu í umræðunni í eina átt er afar sérstakt því að það eru ekki síst andstæðingar frumvarpsins, og stundum að því er virðist þungunarrofs yfirleitt, sem hafa sýnt konum sem tekið hafa þessa erfiðu ákvörðun, mikla vanvirðingu. (Forseti hringir.) En það er ekki síst vegna sannfæringar minnar um frelsi einstaklingsins, að bera ábyrgð á sjálfum sér og um sjálfsákvörðunarrétt sem ég fæ þessa niðurstöðu og styð frumvarpið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)