149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:46]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hérna áðan féllu orð sem hafa valdið mér svolitlum heilabrotum. Ég skrifaði þau niður. Einn hv. þingmaður nefndi að þetta snerist um að forðast tilfinningatengsl við lífið sem verið væri að deyða. Mér þykja þau orð ríma svolítið vel við vanskilninginn á málinu — ég ætla ekki að segja misskilning, ég ætla að segja vanskilning á málinu — eins og að það sé einhver með sterkari tilfinningatengsl en sú sem stendur frammi fyrir þessari ákvörðun. Eins og læknir með alla sína menntun sé með sterkari tilfinningatengsl við fóstur en ólétta konan sjálf er fráleitt. Það er enginn með sterkari tilfinningatengsl en ólétta konan sjálf. Það er enginn í heiminum betur til þess fallinn að taka þá ákvörðun en sá einstaklingur.

Málið snýst í grunninn um það hvort fólk vilji frekar að læknir, sem er ekki með þau sterku tilfinningatengsl, taki ákvörðunina en sú sem gengur með barnið. Þetta snýst um ákvörðunarrétt kvenna. Það er það sem þetta snýst um. (Forseti hringir.) Það er staðreynd. Mér finnst það merki um ákveðna þrjósku og afneitun að láta eins og svo sé ekki. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)