149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:47]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Tökum efnið saman. Það er ekki verið að skerða rétt fóstursins með þessu frumvarpi. Í dag er heimilt að fara í fóstureyðingu í 22. viku. Eftir að þetta frumvarp verður samþykkt er heimilt að fara í þungunarrof í 22. viku. Það er ekki verið að skerða réttindi barnsins eða fóstursins. Það er aftur á móti verið að auka réttindi móðurinnar til að koma að ákvörðuninni lengur, að þessari 22. viku.

Hvað er á hinum endanum?

Sumir vilja banna við getnað, sumir vilja banna við fyrsta hjartslátt sem þýðir að konan veit jafnvel ekki einu sinni af því að hún sé þunguð. Það er að gerast í Bandaríkjunum. Í Kanada er ekki með lögum samkvæmt dómi frá hæstaréttinum þar bannað að fara í fóstureyðingu alveg þangað til barnið er fætt. Það yrði aftur á móti ýtt undir að þungunin ætti sér stað o.s.frv. en þannig er það. Þetta er í miðjunni á grundvallarréttindum fóstursins. (Forseti hringir.) Ef kona t.d. reykir eða er að gera eitthvað sem skaðar fóstrið eftir 22. viku er hægt að svipta hana sjálfræði. Það er ekki verið að svipta fóstrið réttindum með þessu, það er aftur á móti verið að auka réttindi kvenna.