149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:54]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Kæra samstarfsfólk. Hér ræðum við afar viðkvæmt og um leið mikið réttlætismál kvenna. Eftir þessum breytingum hefur verið beðið í ríflega fjóra áratugi, að konur ráði yfir líkama sínum sjálfar. Pælið í því. Gömlu lögin voru sett 1975 — af körlum. Karlar búa ekki við skertan rétt er varðar líkama þeirra af hálfu löggjafans og slíkan rétt eiga hvorki þeir né aðrir að skammta konum byggðan á tilfinningum.

Konur eru alla vega og aðstæður þeirra líka. Ákvörðun um að rjúfa þungun tekur engin kona af léttúð, leyfi ég mér að segja, á hvaða tíma sem er í meðgöngunni, hvort sem það er í 3. viku, 6. viku, 12. viku eða 22..

Þetta frumvarp breytir því heldur ekki að öll aðstoð er til staðar fyrir konu sem óskar eftir því, bæði læknisfræðileg og önnur. Virðum ólíkar skoðanir (Forseti hringir.) en, kæru samstarfsfélagar, við skerðum ekki rétt kvenna á 21. öldinni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) [Háreysti á þingpöllum.]

(Forseti (SJS): Forseti minnir á að það ber að gefa þögn og hafa hljótt á pöllum.)