149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:55]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Sú sátt sem hefur ríkt frá 1975 er að lögin segja ekki hvað við gerum. Hér er rifist um það að við ætlum að festa í lög þungunarrof við tímamörk eins og þau hafa verið ástunduð í 40 ár og það er það sem veldur ósáttinni. Hér er talað um að við í velferðarnefnd hefðum átt að hugsa það að taka tvö hænuskref til baka og velja einhvern annan vikufjölda, eins og við höfum verið að slumpa á þetta, [Hlátur í þingsal.] eins og við höfum verið í einhverju reiptogi, einhverju pólitísku hanaati um hvað vikurnar ættu að vera margar. Nei, þær byggðu á faglegu mati sérfræðinga. Um það er fjallað í frumvarpinu og nefndarálitinu og þó að ráðherrar hafi ekki lesið það þýðir það ekki að þeir geti gert lítið úr því. [Háreysti á þingpöllum.] Ég vil rétt nefna það sem þarf að nefna af því að lítið er gert úr störfum velferðarnefndar í þessum umræðum. Ég þakka (Forseti hringir.) Halldóru Mogensen, hv. þingmanni, fyrir vandaða vinnu í þessu máli þar sem öllum gestakomum var vel tekið og þetta mál var rannsakað í þaula. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)