149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:03]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu öllu meira en mér fannst mikilvægt að koma hingað upp og taka undir með kollega mínum, hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni. Það er grátlegt að fylgjast með því hversu margir karlmenn koma hingað og tala nánast í sömu setningu um hvað þeir virði sjálfsákvörðunarrétt kvenna en ekki þegar kemur að því að hafa forræði yfir eigin líkama.

Staðan er þannig að í dag fer kona í þungunarrof að 22. viku, ekki að lokum 22. viku eins og hefur verið sagt hérna, heldur að 22. viku. Það er það sem þetta snýst um. En það er með leyfi heilbrigðisstarfsfólks, það er heilbrigðisstarfsfólk sem tekur þessa ákvörðun fyrir konuna. Við erum að tala hérna um að treysta konunni til að taka þessa ákvörðun sjálf. Það er enginn sem á að taka þessa ákvörðun fyrir hana.

Við getum ekki talað um að við berum virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti kvenna, bara ekki þarna. Þarna á einhver annar að taka ákvörðun og þar með er verið að segja, (Forseti hringir.) forseti, að það sé hræðsla við að konur séu að fara að hlaupa í þungunarrof að 22. viku bara að gamni sínu af því að það (Forseti hringir.)er hægt núna. Ó, já, heyrðu, ég er komin 20 vikur, ég ætla bara að rjúfa þungun — af því að ég get það núna án þess að fá leyfi frá heilbrigðisstarfsfólki. (Forseti hringir.)Þetta er bara vanvirðing við konur, gífurlega mikil vanvirðing og vantraustsyfirlýsing á konur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)