149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:05]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég var svo heppin að fá að sitja einn nefndarfund velferðarnefndar nýverið þar sem var verið að fjalla um það mál sem við greiðum nú atkvæði um. Þar var alveg ljóst að nefndin tók málið mjög alvarlega og var greinilega búið að fjalla um málið út frá ólíkum sjónarhornum og ýmsu búið að velta upp, sérstaklega varðandi vikufjöldann. Við í þingflokki Samfylkingarinnar vorum sömuleiðis upplýst um alla umræðuna í nefndinni af nefndarmanni okkar, hv. þm. Guðjóni Brjánssyni. Ég skil þess vegna ekki alveg hversu illa upplýstir margir hv. þingmenn virðast vera, jafnvel í þingflokkum sem eiga tvo þingmenn í nefndinni. Eins og fram hefur komið hér er það eina sem er verið að breyta það hver tekur ákvörðunina. Vikufjöldinn er í raun sá sami áfram og sömuleiðis aukin áhersla á upplýsingagjöf sem er einnig mikilvægt. Í mínum huga er það ekki spurning, konan er sú eina sem hefur forsendur til að taka ákvarðanir um eigin líkama og eigið líf. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)