149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að þetta er mjög erfitt mál. Þegar maður hlustar á atkvæðaskýringar er augljóst, og það er bara skiljanlegt, að sumir hafa tekið umræðuna miklu meira og dýpra og hafa því ákveðnar skoðanir en ég held að það skipti hins vegar miklu máli að við reynum að hafa þessa umræðu bæði hér og í þjóðfélagi eins hófstillta og mögulegt er.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé augljóst að konur séu betur til þess fallnar að taka þessa erfiðu ákvörðun en einhverjir sérfræðingar, jafn góðir og þeir eru, en ég kem eiginlega hingað upp vegna þess að ég er einn af þeim fjölmörgu sem finnst þetta erfitt, að mér finnst af augljósum ástæðum, en ég held að þetta sé enn þá erfiðara ef við tölum ekki í þessum sal og annars staðar af virðingu um skoðanir hvert annars. Það er bara mjög skiljanlegt að þær séu mjög misjafnar.