149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:09]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp af því að ég finn mig hreinlega knúna til að leiðrétta hv. formann velferðarnefndar sem alhæfir hér að frumvarpið — fyrst við erum að tala um vikur og virðumst vera föst þar — nái fram að 22. viku. Með leyfi forseta ætla ég að lesa hérna þennan stutta fyrsta málslið 4. gr. í frumvarpinu sem við erum að fara að greiða atkvæði um:

„Heimilt er að rjúfa þungun konu, að hennar beiðni, til loka 22. viku þungunar.“

Ég veit ekki hvað ætti að vera óskýrt í þessu. Mér finnst það algjörlega kýrskýrt. Annað sem hefur valdið miklum ruglingi, fyrir utan það að hér hefur hv. þingmaður komið fram og ætlað að líkja þessu við meðferðina á veiðileyfagjaldi, mér finnst það nú alveg með hreinum ólíkindum, en það er líka alrangt að það sé engin breyting frá 16. upp í 22. viku miðað við það sem við erum að gera hér og nú. Eftir 16. viku er krafa í núgildandi löggjöf að það þurfi að vera skýr læknisfræðileg ástæða fyrir því að (Forseti hringir.) þessi aðgerð sé framkvæmd. Það er algjörlega ólíkt því sem á við um 4. gr. frumvarpsins sem upphaflega var lagt fram.