149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:16]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Ég geri mér engar vonir eða nokkrar væntingar um að mál sem þetta sé hægt að leysa eða að um það náist einhvers konar allsherjarsamfélagsleg sátt. Mér finnst hins vegar mál af þessum toga, og þá er ég að vísa til 4. gr., vera þess eðlis að mér finnst ekki annað forsvaranlegt en að þingið fái tækifæri til að fjalla miklum mun ítarlegra um það atriði, veki upp umræðu utan þings líka um það og þá frá húmanísku sjónarhorni. Það eru áleitnar siðferðisspurningar í þessu, heimspekilegar, sem ég hef ekki svör við. Ég get ekki fullyrt hér á þessari stundu í sjálfu sér hver afstaða mín til þessara mála er. Hún kann meira að segja líka hafa breyst, enda hefur hún breyst á minni lífstíð, mín eigin skoðun í þessu máli. En mér finnst þessi afgreiðsla ekki vera þinginu og þessu máli til sóma og með vísan til þess segi ég nei.