149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:18]
Horfa

Halla Gunnarsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Í aprílmánuði árið 1975 var í þessum sal deilt um frumvarp er varðaði þungunarrof. Áður hafði það kveðið á um frjálsar fóstureyðingar en að tillögu þriggja karla nefndar var ákvörðunarvaldið fært úr höndum kvenna og til fagaðila. Fagaðilar þóttu betur til þess fallnir að meta hvenær þungun getur talist konu óbærileg og hvenær ekki. Líkt og þáverandi hv. þingmaður, Svava Jakobsdóttir, vakti athygli á í þeim umræðum sneri óttinn að ákvörðunarrétti kvenna en hvarf út í veður og vind um leið og ákvörðunarvaldið var fært til embættismanna, sem væru þá, með leyfi forseta, einhvers konar syndalausir endurlausnarar. Sennilega var þetta ótti við einhvers konar óútreiknanleika kvenna. Fái þær of mikil réttindi er aldrei að vita hvað þær gera við þau. Þessi ótti á sér sterkt minni í menningu okkar, en það getur ekki talist til góðs að hann stjórni lagasetningu þótt eflaust séu allt of mörg dæmi um það.

Í dag, 44 árum síðar, liggur fyrir Alþingi frumvarp sem leiðréttir þessa skekkju í lagasetningu frá áttunda áratugnum og færir ákvörðunarvaldið til kvenna (Forseti hringir.) þar sem það á heima. Loksins, hæstv. forseti, loksins. Ég segi já. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)