149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:23]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Þegar Rauðsokkahreyfingin fékk það loksins í gegn að hér voru fóstureyðingar gerðar næstum því frjálsar var það með þeim fyrirvara að það þyrfti að gerast í kyrrþey eftir ákveðinn tíma. Það mátti ekki setja í lög þá staðreynd að þær voru praktíseraðar í rauninni. Hér erum við að færa þann veruleika í lög. Þess vegna þykir mér þetta ekki tiltöluleg ákvörðun. Við erum bara að festa í lagatexta réttindi sem konur hafa átt undir góðu veðri í samfélaginu síðustu áratugi.

Hér hefur verið talað um að ótal gild sjónarmið hafi verið færð fram og ekki hlustað á þau öll. Það voru færð fram sjónarmið frá sérfræðingum í kvenréttindum varðandi sjálfsákvörðunarrétt kvenna, eða það sem fólk kallar stundum í niðrandi tón: „geðþótta kvenna til að taka ákvörðun“. Við stöndum með honum með því að samþykkja þetta mál.

Það voru færð fram rök á læknisfræðilegum grunni sem segja að 22 vikurnar sé rétti staðurinn, jafnvægispunkturinn í þessu máli. Við förum eftir þeim rökum. (Forseti hringir.) Þau rök sem við hlustuðum síst á komu frá fólki sem notar trúarsannfæringu sem grundvöll sinna stjórnmálaskoðana. Þar fer einna fremstur (Forseti hringir.) í flokki biskup Íslands. Það fólk ræður ekki í lögum í landi sem byggir á borgaralegum gildum. (Forseti hringir.)

(Forseti (SJS): Þingmaðurinn segir?)

Ég segi já.