149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:30]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Mér þótti leitt að heyra ræðu síðasta hv. þingmanns sem alla jafna er nú málefnalegur og sanngjarn en var það svo sannarlega ekki í atkvæðaskýringu sinni.

Mér finnst þetta mál erfitt. Finnst þetta mál bara mjög erfitt. Ég virði sjónarmið allra þeirra sem eru með mismunandi sjónarmið hér inni. Ég sé enga ástæðu til þess og ég get ekki séð hvað fær menn til þess að tala með þessum hætti til þeirra aðila sem af bestu samvisku í þessu erfiða máli tjá sig um sína afstöðu.

Mér finnst erfiðast — fyrir utan bara að almennt eru svona mál erfið — að maður hefði viljað sjá 4. gr. unna betur. Þess vegna greiddi ég atkvæði breytingartillögu hv. þm. Páls Magnússonar. En samt sem áður, þegar allt er tekið saman, tel ég það til bóta sem hér er, og þá er ég sérstaklega að vísa til þess að ég tel að viðkomandi einstaklingur, í þessu tilfelli kona, sé best til þess fallinn að taka þessa erfiðu ákvörðun (Forseti hringir.) en ekki sérfræðingar og segi þess vegna já.