149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:34]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Hér koma margir fram og tala um mikið framfaraskref. Ég held það sé nánast enginn sem ekki talar um sjálfsákvörðunarrétt konunnar. Ég velti fyrir mér þegar ítrekað er verið að tala um sjálfsákvörðunarrétt konunnar, hver í veröldinni eigi lokaorðið um það fram að þeim tíma sem hún fer í fóstureyðingu að sú aðgerð skuli framkvæmd? Er það ekki konan sjálf? Það eina sem stendur í mér er að eftir 16. viku skuli það vera svona rosalega mikið prinsippmál að enginn úr heilbrigðisstétt geti komið að því að ákveða hvort það sé eðlilegt að eyða barni eða rjúfa þungun á þeim tíma.

Þannig að ég segi náttúrlega nei, nei og aftur nei. Og mér hefði fundist eðlilegt, í ljósi þess hvað þetta frumvarp er ótrúlega brogað, bæði hvað lýtur að 4. og 5. gr., að við hefðum tekið það betur upp hér og talað um það, eins og ég hef áður sagt, af meiri kostgæfni og reynt að ná um það sátt. Ég trúi því að það hefði verið hægt. Ég trúi því virkilega, virðulegi forseti, að við hefðum getað gert betur. Ég segi nei.

(Forseti (SJS): Þingmaðurinn segir nei.)

Ég segi fjórum sinnum nei. Ég ætla að vona að öll atkvæðin telji.