149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

826. mál
[20:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svarið. Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni að ætla mætti að þetta skilaði sér í hagstæðari kjörum til viðskiptamanna og almennings. Mótrök bankanna, þegar rætt hefur verið rætt um þennan skatt, eru þau að þetta sé vondur skattur og að skattalækkun muni skila sér í lægri gjöldum og vaxtalækkun.

Ég verð að segja það, frú forseti, að ég treysti ekki bönkunum til að skila þessari lækkun, að gjaldskráin komi til með að lækka og að vextir komi til með að lækka. Ég held að það sé hreinlega lögmál að þetta muni leiða til meiri hagnaður hjá bönkunum og gjöld mun í raun og veru ekki lækka.

Þá spyr maður sig: Hefði ekki verið hægt að setja einhvers konar kröfur á bankana að þegar þessi skattur er lækkaður verði þeir að mæta því gagnvart almenningi en ekki bara til hluthafa í formi meiri hagnaður og hærri arðgreiðslna? Það væri gott að fá viðhorf hæstv. ráðherra til þessa. Verðum við ekki að hafa einhverjar tryggingar fyrir því annað en bara eitthvað munnlegt um að gjöld og vextir komi til með að lækka við það að lækka þennan skatt sem bankarnir hafa nú kvartað sáran yfir lengi?