149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

826. mál
[20:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem ég myndi vilja nefna í tilefni af þessum orðum. Annars vegar vil ég vísa í töflu sem er í hvítbók um framtíð fjármálakerfisins þar sem skattlagningin er sérstaklega útskýrð og borin saman við skatta sem eru lagðir á sambærilega banka í nágrannalöndunum. Það er mjög sláandi samanburður. Það er mjög greinilegt að við skerum okkur algerlega úr. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart vegna þess, eins og hv. þingmaður rakti áðan, að þessi skattur kemur til við þær aðstæður að við tókum ákvörðun um að leggja gjöld á bankakerfið til að endurheimta tiltekinn kostnað sem hafði fallið á ríkissjóð vegna falls bankanna. Það á ekki að koma neinum á óvart þess vegna að þessi skattur sé mjög sérstakur og fyrirfinnist ekki annars staðar. En við teljum að það sé kominn tími til að láta hann fjara út. Reyndar situr eftir smávægilegur skattur þrátt fyrir þessa miklu lækkun sem hér er verið að tala um en munar samt verulega um þegar allt er saman tekið.

Síðan er það spurningin sem maður skilur mjög vel og það er eðlilegt að menn velti fyrir sér: Munu bankarnir skila þessu til viðskiptamannanna? Eina tryggingin sem við höfum í því er bara sú að það muni gerast vegna samkeppni. Við þurfum að sjá til þess og það þarf að ganga eftir því að þetta skili sér til viðskiptamanna og að markaðurinn í þessum efnum virki. Við eigum öll gríðarlega mikið undir að það gerist.

Ég bendi aftur á hitt sem ég nefndi áðan að við eigum tvo af þremur stóru bönkunum með húð og hári, (Forseti hringir.) reyndar er smávægilegur hlutur í Landsbankanum í eigu starfsmanna. Bara við það að lækka þessar álögur (Forseti hringir.) mun virði þessara eignarhluta ríkisins aukast mjög.