149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

826. mál
[20:06]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Við tölum um hinn margumtalaða bankaskatt. Þessi kona hefur ósjaldan komið hér upp og tjáð sig hvað hann varðar. Mér hefur fundist áherslan röng. Á það að lækka tekjur ríkissjóðs um 7 milljarða kr. ef við lækkum þennan bankaskatt? Mér finnst bankarnir algerlega burðugir til þess að greiða hann þótt sérstaks eðlis sé.

Ég tel líka að það sé miklum vafa undirorpið, eins og hefur komið fram, hvort neytendur fái nokkurn tíma að njóta þess þótt bankarnir losni við 7 milljarða í formi skattgreiðslu í ríkissjóð. Ég tel að við gætum nýtt þetta fjármagn mun betur í innviðina okkar og til að koma til móts við þann vanda sem er úti í samfélaginu, fátækt og annað slíkt. Það er af nógu að taka eins og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra veit.

Svo kemur líka sú spurning upp: Hvernig voru vaxtakjörin áður en við lögðum bankaskattinn á? Var eitthvað farið mýkri höndum um íslenska lántaka af þeirra völdum þá? Mig rekur ekki minni til þess, því miður. Þannig að ég segi: Við höfum í rauninni mátt sæta vaxtaokri, ekki síst fyrir tilkomu þessa bankaskatts. Ég sé því enga ástæðu til að ætla að við neytendur þessa lands verðum eitthvað sérstaklega verðlaunuð í formi samkeppni á bankamarkaði, sem einkennist sérstaklega af algjörri fákeppni.

Ég held að það sé alveg sama hvað maður skoðar á milli bankanna, það munar 0,00%, einhverju slíku, þegar maður skoðar vexti, hvort sem það eru inn- eða útlánsvextir. Það er því alveg greinilegt að ekki er um mikla samkeppni á þeim markaði að ræða. Ég held að það sé mest spennandi að við náum okkur í einhvern erlendan banka til að koma hingað og koma á alvörusamkeppni. Það þætti mér svolítið spennandi og þá gætum við séð hvernig hlutirnir þróuðust.

Í ljósi alls sem á undan er gengið vil ég ítreka að ég tel ekki nokkra einustu ástæðu til að láta sig einu sinni dreyma um það að vextir á innlán neytenda muni lækka þrátt fyrir að bönkunum verði réttir á silfurfati 7 milljarðar kr. sem þeir þurfa ekki að greiða inn í sameiginlegan sjóð okkar. Ég segi það.

Ég hef svo sem ekkert meira um það að segja. Ég fann mig knúna til að nefna þetta sem eitt af því sem ég tel rangt í forgangsröðun ríkisstjórnar. Mér þykir ekki rétt að lækka þennan skatt, a.m.k. er þetta ekki rétti tímapunkturinn núna þegar við erum nýbúin að fá útgefna nýja þjóðhagsspá sem sýnir svo ekki verður um villst að þrátt fyrir að lendingin verði mýkri en var óttast þá er samdráttur hér. Við að fara úr hagvexti, 2,7%, í mínus 0,2%. Hagstofan hefur svo sem gefið okkur bjartari vonir strax á næsta ári en það breytir ekki þeirri staðreynd að við erum að sigla í gegnum ákveðinn brimskafl. Þess vegna árétta ég að þetta þykir mér sannarlega ekki rétt forgangsröðun, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra.