149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

almannatryggingar.

844. mál
[20:27]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Má Einarssyni fyrir sína vasklegu framgöngu í þessu þarfa máli. Ég tek heils hugar undir með þeim báðum sem á undan mér hafa talað, hv. þingmanni og hv. formanni velferðarnefndar Halldóru Mogensen. Tillagan sem felst í þessu frumvarpi er í rauninni sú að fylgja bara eftir gildandi rétti sem hefur ekki verið gert um árabil.

Ég hef ósjaldan staðið hér og bent á það hróplega óréttlæti sem allir þeir hafa þurft að búa við sem fá greitt úr almannatryggingakerfinu. Það er í rauninni með hreinum ólíkindum að við skulum vera með löggjöf um almannatryggingar þar sem er svo augljóslega, eins og sést í 69. gr. þeirra laga, verið síendurtekið að brjóta á rétti þeirra sem ættu að njóta verndar þeirra laga.

Hvað lífskjarasamningana varðar styð ég þá náttúrlega algjörlega heils hugar. Auðvitað hefðu þessir þjóðfélagshópar sem við erum hvað hatrammast að berjast fyrir, hópar sem er haldið í fátæktargildru, hópar sem ná ekki endum saman — maður furðar sig á því, virðulegi forseti, hvernig í veröldinni stendur á því að þessi hópar eru hreinlega skildir eftir. Af öllum í samfélaginu eru þeir fátækustu, okkar minnstu bræður og systur, skildir eftir. Á meðan flestallir aðrir uppskera einhverja kjarabót gera þau það ekki. Þannig að ég styð heils hugar þetta frumvarp. Ég styð það heils hugar að kjarabætur þær sem nú eru sýnilegar og hafa fengið framgöngu samkvæmt nýjum lífskjarasamningi, fái að ganga yfir til öryrkja, eldri borgara og allra þeirra sem njóta sinnar framfærslu af almannatryggingakerfinu.

Mig langar að tíunda pínulítið það sem kemur fram í 69. gr. þar sem í rauninni í 2. mgr. er tekinn allur vafi af um það að almannatryggingakerfið skuli endurskoða með tilliti til þess að laun hækki aldrei minna en sem nemur launaþróun í landinu hverju sinni. Í staðinn hefur ríkisvaldið nýtt sér í rauninni þetta stuðningsákvæði greinarinnar sem segir: Þó má aldrei hækka minna en sem nemur neysluvísitölu. Það er það sem ríkisvaldið hefur nákvæmlega gert. Í mörg ár hefur það miðað við vísitölu neysluverðs.

Munurinn bara frá 2011 á þessu tvennu, vísitölu neysluverðs á móti launaþróun í landinu, er sennilega, virðulegur forseti, vel yfir 30% á þessu tímabili, sem hallar á okkar minnstu bræður og systur sem þurfa að nýta sér það kerfi sem almannatryggingakerfið er.

Ég hef líka boðað það hér oftar en einu sinni eða tvisvar að við viljum láta reyna á það fyrir dómstólum hvort þetta sé lögmætt, að fara svona með þessa einstaklinga. Við teljum svo ekki vera.

Þannig að um leið og ég styð heils hugar og hvet velferðarnefnd til að taka utan um mál Samfylkingarinnar og keyra það sem hraðast í gegnum velferðarnefnd eigum við alltaf þetta sem er akkúrat að gerast núna. Það er verið að höfða mál gegn ríkinu til þess að láta reyna á 69. gr. og hvernig ríkisvaldið, eins og ég hef sagt, hefur verið með valdníðslu gagnvart þessum þjóðfélagshópum sem eiga virkilega undir högg að sækja og erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér.

Þess vegna er ég sérstaklega þakklát fyrir það hvað mér finnst í rauninni þessi umræða hafa fengið að vaxa og dafna hér inni á hinu háa Alþingi og ég tel að það sé ekki síst fyrir það að Flokkur fólksins, fullskipaður, er bara öryrkjar, eins og maðurinn sagði. Við vitum nákvæmlega um hvað við erum að tala. Við höfum verið að boða það hvernig við höfum þurft að berjast fyrir tilverunni. Þannig að það er ekki erfitt fyrir okkur að setja okkur í þau spor sem allt of, allt of margir okkar samfélagsbræður og systur feta núna.

Þannig að ég segi: Á meðan við höldum umræðunni gangandi og höldum bara áfram og gefumst ekki upp trúi ég því að það sé ekki eins langt í það að okkur takist að útrýma sárustu fátæktinni. Allt sem þarf, eins og ég hef alltaf sagt, er bara vilji. Það er vilji, samstaða okkar allra. Og ég vil líka trúa því, virðulegi forseti, að það sé í rauninni enginn þingmaður hér inni sem ekki er tilbúinn að greiða fyrir því að við tökum virkilega á og hjálpum þeim sem mest þurfa á okkur að halda.