149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

barnaverndarlög.

126. mál
[20:45]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir yfirferðina. Það eru nokkrar spurningar sem vakna við þessa yfirferð, kannski helst út frá praktíkinni í því öllu saman.

Í 1. gr. er talað um að brot gegn ákvæði þessu sæti aðeins opinberri rannsókn að undangenginni kæru barnaverndar til lögreglu. Nú er það svo að barnaverndarnefndir hafa verið mjög tregar til að fara inn í mál þar sem um er að ræða umgengnisdeilu, eins og þær kalla það, þannig að barnaverndarnefnd kemur ekki að málum þar sem foreldrar deila um umgengni. Þá veltir maður fyrir sér hvernig hv. þingmaður og þeir sem eru á þessu frumvarpi sjái fyrir sér að barnavernd geti komið að málinu og kært til lögreglu þegar barnavernd neitar að koma að því, rannsaka það og kanna hvort einhver ástæða sé til þess að barn njóti ekki umgengni.

Nú skal tekið fram að ég lít ekki svo á að það sé tálmun þegar foreldri, af hvaða kyni sem er, er að vernda barn sitt gegn ofbeldi. Það eru önnur mál. En hins vegar er það svo að barnavernd hefur ekki viljað koma að þeim málum. Þá er frekar flókið að láta þetta vera að undangenginni kæru barnaverndar til lögreglu.

Í öðru lagi vil ég spyrja hv. þingmann út í umgengnina og fagna því að báðir foreldrar séu teknir inn, bæði það foreldri sem nýtur umgengnisréttar sem og lögheimilisforeldrið, því að þetta hefur ekkert með forsjá að gera. En nú velti ég fyrir mér, því að í öllum barnalögunum er umgengni alltaf bundin við umgengnisforeldrið en ekki forsjárforeldri: Er ekki nauðsynlegt að breyta einhvern veginn orðalaginu í frumvarpinu til þess að það samræmist öðrum lögum er varða börn?