149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

barnaverndarlög.

126. mál
[21:03]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem nú eiginlega í minna andsvar. Ég vildi nú bara óska hv. flutningsmanni og meðflytjendum til hamingju með þetta frumvarp. Mér finnst það líka vera hálfgerð snilld í sínum einfaldleika.

Það eina sem pínulítið stakk mig er í rauninni refsiramminn. Hann er ansi rúmur. Fimm ár finnst mér dálítið vel í lagt, en alvarleikinn getur líka verið mikill. Ég geri mér grein fyrir því að þó að refsiramminn sé þetta rúmur yrði honum einungis beitt í sérstaklega alvarlegum tilvikum.

Ég vona bara að við stöndum heils hugar á bak við þetta mál og komum til móts við börnin okkar. Það er sjálfsagt enginn okkar alþingismanna sem ekki þekkir einhvern sem í rauninni hefur þurft að sæta tálmun á umgengni við barn sitt.

Til hamingju, hv. þingmaður, og allir þið meðflutningsmenn. Þetta er flott frumvarp.