149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

barnaverndarlög.

126. mál
[21:47]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna áhuga þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem nú sýna áhuga á málefnum barna en geri þó fjölmargar athugasemdir við frumvarpið. Ég myndi gjarnan vilja eiga orðastað við þingmennina og reyna að koma á einhverjum hópi hér á þingi til þess að fara heildrænt yfir bæði barnaverndarlög og barnalög af því að þar er fjölmargt sem þarf að laga miðað við hvernig málum er háttað úti á akrinum.

Í fyrsta lagi verð ég að benda á það sem fjallað er um í umræddu frumvarpi og varðar umgengni. Þegar fjallað er um umgengni og umgengnisrétt í barnalögum er ávallt verið að tala um rétt barns til umgengni við það foreldri sem barn býr ekki hjá. Þess vegna getur þetta frumvarp orðið pínulítið flókið í framkvæmd þó að við skiljum alveg hvað átt er við þarna, að barn eigi skýlausan rétt á að njóta samvista við báða foreldra sína. En út frá lögfræðinni, af því að nú erum við hér löggjafinn, þá er ekki talað um umgengni þegar um er að ræða lögheimilisforeldrið. Það er mjög þreytandi að vera nákvæmur og allt það en við þurfum samt að vera nákvæm þegar við setjum lög. Þetta er í sjálfu sér óheppilega orðað í þessu frumvarpi öllu.

Hins vegar fagna ég mjög að þessi tilraun sé gerð til að taka báða foreldra inn, þ.e. bæði lögheimilisforeldrið og umgengnisforeldrið. Hvort tveggja gerist, að umgengnisforeldri skili ekki barni úr umgengni og að lögheimilisforeldri tálmi. Áður en lengra er haldið vil ég þó segja að þegar ég tala um tálmun þá er ég ekki að tala um það þegar foreldri reynir að vernda barn sitt og láta það ekki fara í umgengni eða samvistir með foreldri þar sem barni stafar hætta af samvistum vegna ýmissa ástæðna, ofbeldis eða vanrækslu, eiturlyfjaneyslu eða hvað sem er. Það eru auðvitað slík tilvik til. Það verður hins vegar að gæta að ákveðinni nákvæmni í svona frumvörpum.

Nú hefur mikið verið rætt hér um umgengnisdeilur og mikið látið eins og það sé ekki deila, umgengnisdeila, ef fyrir liggur úrskurður. Það er alls ekki rétt. Daginn eftir að úrskurður liggur fyrir eða jafnvel daginn eftir að samningur liggur fyrir milli aðila sem sýslumaður hefur staðfest, lögum samkvæmt, getur verið kominn upp ágreiningur. Það heitir umgengnisdeila. Ágreiningur um það hver á að fá að hafa barnið yfir helgina. Um leið er komin upp umgengnisdeila eða umgengniságreiningur enda getur foreldri ekki leitað til sýslumanns með dagsektarkröfu eða reynt að fara fram á innsetningu nema hafa annaðhvort dóm eða staðfestan samning í höndunum. Það er ekki hægt að fara og segja að verið sé að tálma nema maður sé með pappíra upp á að búið sé annaðhvort að semja eða úrskurða um umgengni. Það er ekki hægt að tala um tálmun ef það er ekki staðfest hvernig þetta eigi að fara fram.

Þetta er smámunasemi sem ég gerist sek um en smámunasemi er nauðsynleg þegar lagt er fram svona frumvarp. Við getum alveg lent í því að þetta verði samþykkt og plaggið er allt í einu orðið að lögum og er algjörlega gagnslaust og ekki hægt að nota það af því að það er stútfullt af einhverri vitleysu. Við verðum að vanda okkur.

Í þriðja lagi hef ég bent á það og benti á það í andsvari við hv. flutningsmann Brynjar Níelsson að barnaverndarnefnd hefur undanfarin ár a.m.k. neitað að koma að þegar foreldrar deila um umgengni, þ.e. forsjárforeldri neitar að afhenda barn eða þegar umgengnisforeldri neitar að skila barni. Af hverju veit ég ekki. Ég hef margsinnis sagt að ég líti svo á að það að skerða rétt barns til samvista, ef ekki er ástæða fyrir því, sé í sjálfu sér ofbeldi gegn barninu. Ef engin ástæða, engin rök búa að baki önnur en að móðir sé komin með kærasta og það sé óhollt fyrir barnið eða pabbinn sé að fara upp í sumarbústað enn eitt skiptið — það eru alveg til svona tilvik þar sem maður getur ekki fallist á að það sé hættulegt fyrir barn að fara í bíltúr með pabba eða í bíó með mömmu. Einhverra hluta vegna hefur barnavernd ekki viljað koma að þessum málum af því að þarna eru foreldrar að deila um umgengni, deila um af hverju barninu er ekki skilað. Ég held að við getum samt öll verið sammála því að það er beinlínis grundvallarréttur barns að fá að njóta samvista við báða foreldra sína.

Mig langar líka að velta upp þeirri spurningu hvers vegna hv. þingmenn sem standa að þessu máli velta ekki fyrir sér að setja inn í lög skyldu foreldris til að rækja umgengnisskyldur sínar og þá mögulega eitthvert ákvæði sem segir: Ef þú rækir ekki skyldu þína þá þarftu að borga meiri pening. Ég held að þau séu óteljandi dæmin sem ég hef þurft að fást við í mínum fyrri störfum þar sem foreldri þótti það mjög ósanngjarnt að það væru ekki ríkari meðlagsskyldur á foreldri sem hittir aldrei barnið sitt og sinnir því ekki neitt. Þetta er eitthvað sem við ættum kannski líka að skoða áður en við förum og vinnum svona mál.

Það sem við ættum einnig að skoða hér á Alþingi og sem ég hef margsinnis bent á, bæði á þessu ári og á síðasta löggjafarþingi, er ástandið á sifjadeild sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og öðrum sýslumannsembættum víða um land. Ríkisendurskoðun skilaði frá sér skýrslu sem var algjör rassskelling fyrir stjórnvöld sem stóðu að sameiningu sýslumannsembættanna af því að það var svo ofboðslega illa að því staðið. Það var ekkert verið að velta fyrir sér málastöðunni eða hvernig verkefnin dreifðust um landið né heldur var tryggt að nægt fjármagn fylgdi. Staðan er svoleiðis í dag að ný mál sem varða t.d. umgengnisdeilur, ný mál sem komu í byrjun október, fyrir sex, sjö mánuðum, eru ekki enn þá komin til úthlutunar til fulltrúa. Allan þennan tíma er fullt af börnum sem ekki fá að njóta samvista við foreldra sína af því að kerfið, og á því bera stjórnvöld ábyrgð, virkar ekki af því það er ekki nægur peningur. Það er enginn annar sem ber ábyrgð á því.

Hvernig væri nú að við myndum bretta upp ermar í næstu viku þegar við klárum fjármálaáætlun og reyndum að koma sýslumannsembættunum til aðstoðar og setja inn skýra fjárveitingu til sifjadeildanna á landinu til að koma í veg fyrir þetta neyðarástand hjá litlum börnum úti um allt land? Ég skora á flutningsmenn þessa frumvarps að koma með mér í þann leiðangur af því að ég hef verið pínulítið ein öskrandi hérna úti í eyðimörkinni. Flutningsmenn eru stjórnarliðar. Það væri frábært að fá ykkar liðsinni í þetta.

Um leið og staðan er þessi þá veltir maður líka fyrir sér möguleikum fulltrúa sýslumanna til þess að fara djúpt í nauðsynlega skoðun á því hvort það séu nægileg rök fyrir því að umgengni sé stöðvuð. Hvernig eiga þessir yfirhlöðnu fulltrúar sýslumanna að fara að því að rannsaka með fullnægjandi hætti hvort það geti verið rétt að ofbeldi sé til staðar, hvort þessi grunur sé rökstuddur, hvað búi að baki þegar umgengni er stöðvuð? Ég óttast það, miðað við það ofboðslega álag sem er á fulltrúunum, að allt of oft séu gerð mistök í þessum málum á báða bóga. Fyrir utan það hversu margir foreldrar hreinlega gefast upp á þessum slagsmálum og segja: Æ, gleymið þessu bara. Og hver tapar þar? Það er barnið sem á sínum fullorðinsárum fer að velta fyrir sér hvað gerðist, hvað varð um mömmu eða pabba, af hverju reyndi hann eða hún ekkert að hafa samband við mig, og kemst þá að því hvernig í pottinn var búið. Að viðkomandi gafst upp á því að reyna að berjast fyrir skýlausum rétti barnsins til að eiga samvistir við báða foreldra af því að kerfið á Íslandi bauð ekki upp á það.

Þá langar mig að tala aðeins um sáttameðferð. Sáttameðferð hjá sýslumannsembættunum er líka á ótrúlega vondum stað. Hv. þm. Halla Gunnarsdóttir sagði að sáttameðferð hefði skilað ofboðslega góðum árangri. En sáttameðferð eins og hún er skráð í lögin hefur líka valdið ofboðslegu tjóni. Hún getur tafið mjög nauðsynlegar aðgerðir. Vil ég taka dæmi af foreldrum sem hafa í þrjú ár verið að deila um forsjá, lögheimili og umgengni barna sinna. Eftir niðurstöðu í héraðsdómi þar sem annað foreldrið á að afhenda barnið til hins neitar foreldrið að afhenda barnið. Hvað þarf þá að gera? Jú, það þarf að fara aftur í sáttameðferð af því að lögin segja það. Það er ekki hægt að fara í innsetningu, krefjast afhendingar á barni, af því að það vantar sáttavottorð. Þetta er auðvitað algerlega galið.

Þeir sem starfa í þessum málaflokki, sifjaréttinum, eru sammála um að þetta sé orðið algjört klúður. Það eru fjórir sáttamenn sem starfa á öllu landinu að því ég best veit, sem eiga að sinna öllum þessum málum. Það byrjar á því að það tekur mann sjö, átta mánuði að fá fyrsta viðtal hjá löglærðum fulltrúa og svo tekur mögulega þrjá mánuði að fá hinn aðilann til að mæta í viðtal. Þá er komið næstum því ár og svo á fólk að fara í sáttameðferð. Þið sjáið það að foreldri sem vill koma í veg fyrir umgengni getur dregið það mánuðum og árum saman að fara í svona sáttameðferð. Þetta er algerlega óboðlegt ástand. Við þurfum að tryggja úrbætur á því. Ég legg því til að við reynum að fara saman í þetta verkefni í staðinn fyrir að afgreiða frumvarp eins og þetta þar sem byrjað er einhvern veginn á öfugum enda.

Svo má velta fyrir sér hvort refsingar per se séu lausnin. Það hefur komið alveg skýrt fram í mínu máli að þegar verið er að skerða skýlausan rétt barns til umgengni við báða foreldra sína þá er það í sjálfu sér ofbeldi í mínum huga. Það er það. Það er grundvallarréttur barns að fá að þekkja báða foreldra sína. Tálmun er ekki tálmun þegar foreldri er að verja barn sitt gegn ofbeldi, svo því sé líka haldið til haga fyrir þá sem eru að fylgjast með þessari umræðu. En að ákveða refsingar á þessum tímapunkti með svona veikt kerfi, vegna alls þess ómöguleika sem ég hef bent á, þá er ég eiginlega mjög fegin hvað þetta mál kemur seint fram. Það er alveg útilokað að það komist neitt lengra en bara inn í einhverja nefndina og sofni þar værum svefni.

Ég ítreka að ég hvet flutningsmenn til þess að koma með mér í þann leiðangur að reyna að efla kerfið svo að við getum tryggt grundvallarmannréttindi barna á Íslandi.