149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

hagsmunafulltrúi aldraðra.

825. mál
[23:45]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Þetta fer nú að verða nokkurs konar miðnæturtillaga hjá okkur í kvöld, þessi þingsályktunartillaga. Ég er afskaplega stolt að við skyldum fá að taka þetta mál úr nefnd og mæla fyrir því þó að ég búist ekki við að það fari miklu lengra frekar en önnur mál sem við í Flokki fólksins höfum sett inn í hv. velferðarnefnd.

Við í Flokki fólksins höfum beitt okkur fyrir því og verið hugsjón okkar frá upphafi, ekki einungis að berjast gegn fátækt, heldur að taka utan um þá þjóðfélagshópa sem búa við erfiðar aðstæður. Í þessu tilviki erum við að tala um aldraða, þó sérstaklega með tilliti til þess að komið hefur í ljós við athuganir og rannsóknir á aðbúnaði aldraðra, sérstaklega þeirra sem hafa verið á sjúkrastofnunum og farið síðan heim, viljað fara heim, að aðbúnaði þar hefur verið virkilega ábótavant, allt of oft.

Ung kona skilaði skýrslu — ég man ekki alveg hvað hún heitir, dottið úr mér — eftir að hafa gert rannsókn á því. Hún var að gera rannsóknarritgerð í Háskóla Íslands í sambandi við aðbúnað, næringarfræði og annað slíkt, er laut að öldruðum sem bjuggu einir heima og höfðu útskrifast eftir sjúkrameðferð. Af þeim 13 einstaklingum sem hún heimsótti og skoðaði aðbúnaðinn hjá þjáðust þeir allir af mismiklum næringarskorti, og ekki bara það, heldur var öllum aðbúnaði algjörlega ábótavant. Ísskápurinn var tómur og oft var viðkvæðið þetta: Ég treysti mér bara ekki út. Það er enginn til að hjálpa mér í búðina. Það er allt of hált, ég gæti dottið, ég gæti brotnað.

Það er á slíkum tímapunkti, og ég veit að það er sannarlega ekki í fyrsta skipti, sem okkur finnst nauðsynlegt að koma á fót einhverjum fulltrúa, hagsmunafulltrúa aldraðra, sem heldur utan um hagsmunamál þeirra af hvaða toga sem er.

Þess vegna hef ég sem flutningsmaður og minn ágæti samflokksmaður, Guðmundur Ingi Kristinsson, lagt fram þessa þingsályktunartillögu um að fela félags- og barnamálaráðherra að leggja fyrir árslok fram á Alþingi frumvarp til laga um embætti hagsmunafulltrúa aldraðra.

Ég ætla að lesa þessa stuttu greinargerð, með leyfi forseta:

Með tillögu þessari er lagt til að fela félags- og barnamálaráðherra að undirbúa og leggja fram frumvarp til laga um embætti hagsmunafulltrúa aldraðra.

Þjónusta við aldraða dreifist á hendur ríkis, sveitarfélaga, félagasamtaka og einkaaðila. Lög og reglur um málaflokk aldraðra eru flókin, ekki síst á sviði skatta, almannatrygginga og heilbrigðismála. Aldraðir eru stór og fjölbreyttur hópur og misjafnlega fær um að gæta eigin réttar og hagsmuna. Að mati flutningsmanna er því rík þörf á málsvara sem gætir réttinda og hagsmuna aldraðra og leiðbeinir þeim um rétt þeirra.

Hagsmunafulltrúa aldraðra er ætlað að vekja athygli á réttinda- og hagsmunamálum aldraðra almennt, jafnt á opinberum vettvangi sem og hjá einkaaðilum, leiðbeina öldruðum um réttindi sín og bregðast við telji hann að brotið sé á þeim. Hagsmunafulltrúa aldraðra ber að hafa frumkvæðiseftirlit með persónulegum högum allra eldri borgara og þá sérstaklega með tilliti til að koma í veg fyrir félagslega einangrun, næringarskort og almennt bágan aðbúnað þeirra. Jafnframt skal hann gera tillögur um úrbætur á réttarreglum er varða aldraða og hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni aldraðra.

Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar hafa tillögur í þessa veru verið lagðar fram áður á þingi en ekki hlotið afgreiðslu, því miður. Á 120., 121., 122., 126., 144. og 145. löggjafarþingi voru lagðar fram tillögur til þingsályktunar um umboðsmann aldraðra. Á 122. löggjafarþingi var lagt fram frumvarp til laga um umboðsmann aldraðra, 475. mál. Þá var á 136. löggjafarþingi lögð fram tillaga til þingsályktunar um málsvara fyrir aldraða.

Í ljósi þess að við verðum sífellt eldri og öldruðum fjölgar sífellt er meiri hætta á einangrun. Við vitum að fullorðna fólkið lætur ekki hafa mikið fyrir sér. Það er hógvært og heldur sig til hlés. Það eru mjög miklar líkur á því að aldraður einstæðingur sem hefur misst maka sinn og býr einn einangrist heima. Þess vegna segjum við að ærin ástæða sé til að láta loks verða af því að koma á fót embætti hagsmunafulltrúa aldraðra.

Þess vegna skora ég á þingheim allan að taka vel undir þessa tillögu, þótt ég sé alls ekki bjartsýn á að hún komi úr velferðarnefnd frekar en nokkuð annað. En ég vonast náttúrlega til þess að svo verði þar sem þetta er sannarlega hagsmunamál sem við komum öll til með, vonandi, að fá að njóta á efri árum. Ég geri ráð fyrir, svona almennt séð, að flest okkar fái að verða gömul.

Flokkur fólksins hefur virkilega látið sig málefni aldraðra, öryrkja og fátækra varða. Allt sem lýtur að félagslegum aðbúnaði og vanda.

Við teljum að það sé grundvallaratriði í okkar velferðarsamfélagi, opna og gegnsæja, eins og við viljum gjarnan kallað það, að við tökum utan um hvert annað og hjálpumst að við að láta öllum líða sem best. Við teljum að hagsmunafulltrúi aldraðra, sem við leggjum til að verði komið á fót, muni skipta sköpum sérstaklega fyrir þá sem hafa ekki marga til að styðja sig við og þá sem eru einangraðir og einir og líða jafnvel næringarskort.