149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni kærlega fyrir innlegg hans því að hann er í rauninni á nákvæmlega sama stað og ég er akkúrat núna. Ég ætlaði einmitt að nota störf þingsins til að tala um störfin. Þannig er mál með vexti að okkur þingmönnum var gefið svigrúm til að koma með nýtt mál inn í þingið í gær, framsögu, þ.e. svokallað þingmannamál. Það sem verra var að við fengum ekki að ráða sjálf t.d. hvaða mál við myndum velja vegna þess að það varð að vera hafið yfir allan vafa um að það myndi ekki skapa óþarfa umræður eða of langar umræður, til að reyna að flýta fyrir störfunum í þinginu.

Staðreyndin er sú að Flokkur fólksins er með þingsályktunartillögu um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017 um breytingu á IV. viðauka, sem sagt við EES-samninginn, svokallaða þriðja orkupakkann.

Okkar sannfæring er sú að þetta mál sé þannig vaxið að það eigi erindi við þjóðina, hvort sem þriðji orkupakkinn einn og sér gerir einhverjar stórkostlegar breytingar frá því sem áður var, það er svo aukaatriði, heldur er aðalatriðið hvaða skref við erum að taka. Á hvaða vegferð erum við, hvernig er hið heildstæða mat og af hverju í veröldinni skyldi þjóðin ekki mega eiga síðasta orðið um slíkt?

Ég segi að samkvæmt 4. gr. laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna þá skal þessi þjóðaratkvæðagreiðsla fara fram í fyrsta lagi þremur mánuðum og í síðasta lagi einu ári eftir að svona þingsályktunartillaga hefur komið fyrir þingið.

Virðulegi forseti. Ég stend á því fastar en fótunum að þetta eigi erindi til þjóðarinnar. Þetta er risavaxið mál um framtíð okkar. Við ræðum það í dag og sitt sýnist hverjum. En samt sem áður (Forseti hringir.) er alltaf gaman ef við fáum að hafa skoðanir okkar án þess að á þær sé ráðist eins og ég veit ekki hvað. Þannig að ég bið okkur öll (Forseti hringir.) að bera virðingu hvert fyrir öðru í umræðunum á eftir.