149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[14:51]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

(Forseti (JÞÓ): Síðastur til að veita andsvar er Óli Björn Kárason, hv. 10. þm. Suðvesturkjördæmis. ... Bergþór Ólason, afsakið.)

Virðulegur forseti. Ég og hv. þm. Óli Björn Kárason erum svo oft sammála að þetta er alveg hið eðlilegasta mismæli. En ef ég fer sjálfur að kalla mig Óla Björn Kárason máttu leiðrétta mig.

Ég þakka hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur fyrir ræðuna. Inngangsorðin vekja strax athygli mína þar sem, með leyfi forseta, segir í minnihlutaálitinu:

„Að mati minni hlutans er nauðsynlegt að nýta krafta einkaaðila til að framkvæma aðgerðir með hagkvæmum hætti og verðaðhaldi á sama hátt og gert er í útboðum með kostnaðargreiningum og markmiðssetningu.“

Ég held að þetta sé skynsamleg nálgun hjá þingmanninum og langar að spyrja hv. þingmann hvort mat hennar sé að of mikill fókus sé á að öllu sé stýrt inn á Landspítalann í því formi sem við þekkjum í dag. Þetta er auðvitað umræða sem hefur verið töluvert mikil í þingsal undanfarna mánuði og misseri. Ég vil nýta þetta tækifæri til að spyrja hv. þingmann hvort upplifun hennar sem nefndarmanns í velferðarnefnd sé að þarna sé fókusinn áfram settur og enn skýrar á þá þróun sem við þekkjum svo vel í tengslum við umræður um liðskiptaaðgerðir, svo dæmi sé tekið.