149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[15:27]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég verð að viðurkenna að ég reiknaði frekar með því að hann kæmi hér upp og segði að vissulega hefði mátt leggja meiri áherslu á sjónarmið sem sneru að landsbyggðinni. Ég reyndi í miklum flýti að fletta í gegnum annars vegar tillögu til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 og nefndarálitið. Ég verð að segja að þetta er ansi þunnur þrettándi, sjónarmiðin sem þarna eru sett fram varðandi landsbyggðina.

Í þingsályktunartillögunni sjálfri á bls. 2, í 2. kafla, Rétt þjónusta á réttum stað, segir í lið 7, með leyfi forseta:

„Aðgengi að heilsugæslu og þjónustu sérfræðinga á landsbyggðinni verði jafnað með fjarheilbrigðisþjónustu og vel skipulögðum sjúkraflutningum.“

Það hefur komið fram í umræðunni að þetta kemur auðvitað ekki nándar nærri í staðinn fyrir þá þriðja stigs þjónustu sem menn þurfa raunverulega sækja á þessa tvo staði þar sem hún er veitt, fyrst og fremst annan þeirra.

Annað atriði sem snýr að landsbyggðinni er í 6. lið undir 4. kafla, Virkir notendur, þar sem segir:

„Landsmenn hafi tæknilega möguleika á heimilum sínum til þess að komast í samband við heilbrigðisþjónustu óháð búsetu.“

Það er framsýnt markmið að tryggja það að allir geti hringt á sjúkrahús en ég sé í sjálfu sér ekki miklu meiri hag hinna dreifðu byggða af þessu markmiði. Ég held að þarna sé staðan eins og hún er í dag.

Í fyrstu málsgrein greinargerðarinnar segir að meginmarkmið íslenskrar heilbrigðislöggjafar sé að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem tök eru á að veita á hverjum tíma til að vernda andlega, líkamlega og félagslega heilsu fólks. Þetta er ágætismarkmið en það er ekkert að mér sýnist, alla vega er skautað létt fram hjá því í þessari þingsályktunartillögu og meirihlutaálitinu, um það hvernig á að tryggja hinum dreifðu byggðum þessa aðstöðu.