149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[15:46]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni fyrir ræðuna. Mig langar í byrjun að hrósa þingmanninum sérstaklega fyrir það hversu hreinskilinn og opinskár hann var hvað það varðar að benda á þau atriði sem vantar í þessa heilbrigðisstefnu. Þau eru nefnilega alveg ótrúlega mörg. Þetta er þunnur þrettándi.

Ég verð að viðurkenna að það kom mér dálítið á óvart að heyra ræðu hv. þingmanns. Ég held hann hafi rammað þetta ágætlega inn. Nú þekkjum við mörg til hans fyrri starfa sem framkvæmdastjóra heilbrigðisstofnunar úti á landi, þannig að hann þekkir þetta prýðisvel og maður skynjaði það í ræðu þingmannsins að hann skautaði létt yfir sjónarmið hinna dreifðu byggða, hina margvíslegu þætti sem hreinlega vantar þar inn, geðheilbrigðisþjónustu svo að dæmi sé tekið og margt annað eins og þingmaðurinn kom inn á.

Mig langar til að forvitnast um það. Nú er hv. þingmaður nefndarmaður í velferðarnefnd og þó hann hafi ekki verið á fundinum þar sem málið var tekið út — það skiptir svo sem ekki öllu máli — fylgist hann væntanlega með allri umfjöllun. Er það rétt skilið hjá mér að því hafi verið hafnað að taka þessi sjónarmið sem þingmaðurinn nefndi inn í meirihlutaálitið á þeim forsendum að ekki ætti að fara í smáatriðum í heilbrigðisstefnu? Það er þá bara ágætt að það liggi fyrir ef heilbrigðisráðherra álítur þau atriði sem hv. þingmaður taldi hér upp vera smáatriði sem eigi ekki heima í heilbrigðisstefnu stjórnvalda.