149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég tel því öðruvísi farið þegar vísað er í Davíð Þór Björgvinsson, hvað hann gerði úr lagalega fyrirvaranum — hann taldi hann einfaldlega ekki þurfa. Flestir fræðimenn hafa reyndar komist að þeirri niðurstöðu að hann sé óþarfur. En út af þeim spurningum og álitamálum sem komu upp var farið í dýpri skoðun og það er einn fræðimaður eða tveir með eina álitsgerð sem lýsa yfir þessum áhyggjum og því förum við þá leið sem þar kemur fram með þennan lagalega fyrirvara.

Og hvaða gildi hefur sá lagalegi fyrirvari? Jú, hann hefur ekki einungis fengið samþykki frá orkumálastjóra ESB um sameiginlegan skilning heldur einnig núna EFTA-ríkjunum sem árétta stöðu okkar sérstaklega. Og Bjarni Már Magnússon dósent segir t.d. að þetta hafi mikið þjóðréttarlegt gildi, þessar yfirlýsingar, og sé talsvert bindandi. Ég held að hér sé brugðist við með algerlega réttum hætti af því að ekki er hægt annað en að horfa á minnihlutaálitið sem liggur fyrir, sem byggist á nákvæmlega sömu orðræðu og var í fyrri umr. um málið og nákvæmlega því að vísað sé í að Stefán Már Stefánsson hafi ákveðna skoðun á því hvað gildi fyrir stjórnarskránni. Hann hefur haft þær skoðanir uppi áður og sömu vangaveltur í kringum fjármálreglugerðirnar. En sú leið er farin og það er aðalatriðið. Sú leið sem er farin hér er líka að hans mati í samræmi við stjórnarskrá, eins og allra annarra fræðimanna sem komu fyrir nefndina.

Ég held að það hafi bersýnilega komið í ljós síðustu daga og vikur í vinnunni í nefndinni að hin leiðin sem hv. þingmaður vildi kannski frekar fara feli í sér enn meiri óvissu. Hún varðar EES-samninginn okkar.