149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður segir að ég gefi lítið fyrir að fara hina leiðina. Ég gef lítið fyrir hana því að það er ekkert í þriðja orkupakkanum sem gefur tilefni til þess. Til að nýta þann öryggisventil í EES-samningnum, að fara í þá óvissuferð, þurfa algerir hagsmunir Íslands að liggja fyrir, að þess sé þörf. Þess vegna tel ég algerlega fráleitt að ætla í það vegna þriðja orkupakkans. Hv. þingmaður hefur setið með mér í nefndinni og fengið svör við öllum þeim spurningum sem hafa vaknað og ég held að þau hafi verið ansi skýr.

Varðandi seinna atriðið: Felst eitthvað í þriðja orkupakkann fyrir neytendur? Eru ekki bara allir í frekar góðum gír hér? Jú, t.d. vegna fyrsta og annars orkupakkans. Vegna þeirra neytendastefnu sem kemur þar fram, að hægt sé að skipta um orkusala. Þú getur t.d. lækkað orkukostnað einnar fjölskyldu um 30.000 á ári og ég veit að það skiptir fullt af fjölskyldum máli. Samkeppni á orkumarkaði skiptir fjölskyldur á Íslandi verulegu máli.