149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:00]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. framsögumanni meirihlutaálitsins, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, fyrir ræðu sína. Ég er einn af þeim sem hafa miklar efasemdir um hina svokölluðu fyrirvaraleið á meðan útfærslan á þeim er til heimabrúks eins og sumir hafa lýst. Við afgreiðslu málsins í Noregi voru settir ákveðnir fyrirvarar og mig langaði til að spyrja hv. þingmann hver afdrif þeirra hafi verið og hversu mikið hald menn telji í dag hafa verið í þeim fyrirvörum.

Hv. þingmaður talaði síðan um — og mig langar að spyrja hvort það séu í hennar orð eða hvort hún sé þar að vísa í orð Bjarna Más Magnússonar, dósents við Háskólann í Reykjavík — að sameiginlegar yfirlýsingar og fyrirvarar væru talsvert bindandi. Auðvitað má vera að þetta sé mismæli. En ef þetta er ekki mismæli langar mig að vita hvort þetta eru orð hv. þingmanns eða gests fyrir nefndinni, Bjarna Más Magnússonar, geri ég þá ráð fyrir, þegar sagt var að yfirlýsingar sem þessar væru talsvert bindandi.

Aðalspurningin snýr þó að fyrirvörunum og þeim fyrirvörum sem gerðir voru í Noregi, hver afdrif þeirra hafi orðið og hvort þeir hafi haldið.