149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmanni er tíðrætt um þann asa sem er á meðferð málsins. Ég veit ekki betur en að þetta mál hafi verið til umræðu í þinginu síðan 2010. Þá var ég ekki einu sinni byrjuð að hugleiða það að fara á þing. Málið hefur fengið gríðarlega mikla umræðu, bæði hér og í samfélaginu síðustu vikur, vissulega. Þess vegna tóku hæstv. ráðherrar því alvarlega að skoða málið vel, að ígrunda það vel, fá allar álitsgerðirnar fram. Og nefndin ekki síður, eins og sjá má af öllum þeim fjölda gesta sem við fengum og ég las upp áðan. Það er mjög erfitt að halda því fram að einhver asi sé á málinu.

Hér erum við að ræða málið í síðari umræðu. Hv. þingmaður, sem var í nefndinni síðastliðinn föstudag, vissi vel að úttekt málsins lægi fyrir og ekki komu sérstakrar vangaveltur eða athugasemdir við það.

Varðandi það þá leið sem Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Hirst leggja einnig til og er ekki farin hér, enda ekki talin þörf á því vegna þriðja orkupakkans, þá velta þeir upp ákveðnum spurningum í álitsgerð sinni um það hvað gerist. Þeir geta ekki svarað því og segja að það sé óvissuþáttur í hinni leiðinni. Það var þess vegna sem við fengum fram álitsgerðir frá bæði Carl Baudenbacher og Alþjóða- og Evrópuréttarstofnun Háskólans í Reykjavík til að svara því hvað gerist, hver óvissuþátturinn sé, til að meta það. Nefndin tók það til umfjöllunar og mat hvort það væri raunverulega leið sem við vildum fara vegna þessa máls. Niðurstaðan er að við viljum það ekki. Þess vegna er hin leiðin farin, sem þeir tiltaka að standist einnig stjórnarskrá.