149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta minnihlutaálit, þó að ég telji lítið nýtt í því frá fyrri umræðu þar sem nefndin hefur auðvitað farið yfir margt.

Mig langar að spyrja hv. þingmann að því hvar í orkupakka þrjú sé að finna afsal á forræði yfir orkuauðlindinni.

Síðan langar mig að spyrja hvar í orkupakka þrjú sé sagt að einhver hafi rétt til þess að brjóta upp stór fyrirtæki eins og Landsvirkjun.

Og síðan, fyrst ég hef örlítið lengri tíma, varðandi tveggja stoða kerfið. Hv. þingmaður stóð að því að samþykkja fjármálareglugerðirnar. Þar er lengra gengið samkvæmt mörgum fræðimönnum. Hv. þingmaður samþykkti þær. Er hann orðinn afhuga þeim eða afhuga öllu framsali eða bara svona stundum?