149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:46]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú auðvelt að byrja á því að svara síðustu spurningunni. Ég er að sjálfsögðu mótfallinn öllu valdframsali til erlendra stofnana sem rúmast ekki innan stjórnarskrár Íslands, svo það sé á hreinu. Og þó að hv. þingmaður komi fram með þau rök, sem við höfum því miður heyrt allt of oft áður í þessari umræðu, að vegna þess að menn kunni að hafa klúðrað málum einhvern tímann áður og gefið eftir of mikið vald sé ekki ástæða til að standa vörð um stjórnarskrána núna, eru það líklega lökustu rökin sem hafa verið færð fram fyrir samþykkt þessa þriðja orkupakka.

Hvað varðar fyrri spurningar um það hvar í orkupakkanum og þeim reglugerðum sem um ræðir sé að finna valdheimildir mun ég rekja það sérstaklega í næstu eða þarnæstu ræðu minni, fara yfir þessar reglugerðir lið fyrir lið. Ég hvet hv. þingmann til að fylgjast með því, því að þetta er allt saman mjög skýrt. Markmiðin eru skýr og reglurnar eru skýrar og því best að leita beint í orkupakkann sjálfan.