149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Takk fyrir þetta. Hv. þingmaður leggur mér orð í munn með því að segja að við höfum ekki áhyggjur af valdframsali í heild sinni. Öll sú vinna sem hér er lögð fram er á grundvelli þeirrar spurningar. Þess vegna fengum við til okkar svo marga fræðimenn til þess að lýsa því og koma með svar við því álitaefni. Og það er ansi skýrt, langflestir fræðimenn komast að sömu niðurstöðu um að meira að segja fyrirvarinn sé óþarfur og einn kemur með þá tillögu sem hér er lögð til.

En af því að þingmaðurinn svaraði því ekki hvar þetta væri að finna er það auðvitað alveg ljóst að Ísland hefur áfram fullt forræði yfir orkuauðlindinni og þriðji orkupakkinn varðar ekki yfirráðarétt yfir orkuauðlindum á Íslandi. Okkur hv. þingmanni er jafn annt um stjórnarskrána hvað varðar valdframsal.

Hv. þingmaður velur sér sjónarmið Stefáns Más upp úr álitsgerð. En það sem Stefán Már segir einnig er að það sé enginn lögfræðilegur vafi á því að (Forseti hringir.) sú leið sem er farin hér sé í samræmi við stjórnarskrá. Ætlar hann að líta fram hjá þeirri staðreynd?