149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tók eftir því í nefndaráliti hv. þingmanns að hann passar mjög vel að fullyrða hvergi í nefndarálitinu sjálfu að innleiðing þessa orkupakka leiði af sér sæstreng. Hann nefnir það að einhver annar meti það sem svo, einhver annar hljóti að komast að þeirri niðurstöðu. Það er reyndar ekki sami skilningur og ég legg í það sem hv. þingmaður fjallar um í nefndarálitinu.

Burt séð frá því langar mig að stinga upp á einu við hv. þingmann og fá skoðun hans á því. Akkúrat núna í dag er ekkert stjórnarskrárlega flókið við það að leggja sæstreng. Alþingi þyrfti að samþykkja einhver lög, það þyrfti að setja einhverjar reglur, geri ég ráð fyrir. Reyndar er líka sagt að regluverkið sé þegar til. En alla vega er það ekkert stjórnarskrárleg vafamál núna við að leggja sæstreng.

Í þessu máli er hið meinta stjórnarskrárlega vafamál fært til þess tíma þegar og ef sæstrengur yrði lagður. Myndi það ekki gera það erfiðara að leggja sæstreng í kjölfar samþykktar þessa máls frekar en einfaldara, þar sem það er núna ekki stjórnarskrárleg vafi, enginn slíkur? En eftir þriðja orkupakkann í lögum á Íslandi er allt í einu lagning sæstrengs orðin spurning um stjórnarskrárlegan vafa. Þann sama og hv. þingmaður fjallar um. Er ekki svo?