149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:56]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var ágætisfyrirspurn vegna þess að hún dró fram það sem ég hef reyndar reynt að benda á sjálfur, að ef eitthvert hald væri í fyrirvörunum og að við teldum að þær ráðstafanir sem ríkisstjórnin er að grípa til yrðu raunverulega til þess að draga úr líkunum á sæstrengur yrði lagður, skyldi maður þá ekki ætla að helstu talsmenn slíkrar framkvæmdar væru mótfallnir því að orkupakkinn yrði innleiddur með þessum hætti?

En sú er ekki raunin. Þeir eru þvert á móti mjög áfram um það og berjast fyrir því, m.a. með hjálp almannatengslafulltrúa, að þetta mál komist í gegn.

Og hvers vegna skyldi það nú vera? Vegna þess að þeir vita sem er, og þeir vita það sem við allir þingmenn ættum að gera okkur grein fyrir, að þetta er allt liður í sama gangverkinu, liður í því að undirbúa markaðinn fyrir þessa opnun og geta selt íslenska raforku á miklu hærra verði en nú er raunin.