149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:59]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í rauninni er ég sammála hv. þingmanni um megnið af því sem hann sagði. Ég er einfaldlega að benda á hversu fráleitt það er að vera að innleiða regluverk sem menn ætla að reyna á sama tíma að koma í veg fyrir að öðlist gildi. Hvers vegna? Hvers vegna er þá farið í þetta allt saman? (HHG: Til að þóknast þér.) Til hvers er ríkisstjórnin að reyna að þvinga í gegn þriðja orkupakkann ef þetta skiptir í rauninni engu máli? (Gripið fram í: Neytendavernd.)— Hver sagði neytendavernd? Það er einmitt eitt af því kostulegasta í þessu öllu, en ég kem inn á það í síðari ræðu minni.

Við hljótum hins vegar öll að gera okkur grein fyrir því, þingmenn, að þetta er liður af hálfu Evrópusambandsins í að ná þeim markmiðum sem lýst er með orkupakkanum. Við höfum séð hvað Evrópusambandið er tilbúið til að ganga langt til að ná markmiðum sínum, jafnvel þegar við höfum talið okkur hafa einhverja fyrirvara. Bíður ekki hér mál um að heimila innflutning á hráu kjöti og (Forseti hringir.) ófrosnu og ógerilsneyddum matvælum? Sem er niðurstaða sem fyrrnefndur Stefán Már Stefánsson sagði að væri röng. En það er stefna Evrópusambandsins.