149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:02]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér spurðu tveir þingmenn mig spurninga. Ég veit ekki hvorum þeirra ég á að svara. Annars vegar er það þingmaðurinn sem tók fram að það hefði engin áhrif að vera á þessum lista, enda hefði það komið skýrt fram að í því fælist engin skuldbinding, og hins vegar þingmaðurinn sem reyndi að nota þetta sem ástæðu til að halda því fram að ég hafi komið beint að lagningu sæstrengs. Þetta er auðvitað mjög kostuleg framsetning, eins og svo margt í þessu máli.

Ég vil þó hrósa hv. þingmanni fyrir að nefna að það hafi verið iðnaðarráðherra — hann gleymdi reyndar geta hvers flokks — nefnilega Sjálfstæðisflokksins sem kom að þessu verkefni. Vegna þess að ég taldi að Sjálfstæðisflokkurinn væri farinn að gleyma algerlega þátttöku sinni í fyrri ríkisstjórnum, eins og hann sakaði nú Samfylkinguna oft um að vera minnislausa.

En hvað varðar þetta IceLink-verkefni hef ég alltaf verið þeirrar skoðunar, virðulegur forseti, að það sé rétt að ræða hlutina, að skoða þá, (Forseti hringir.) en alls ekki að gera neinar skuldbindingar hvað þetta varðaði. Og það sem við erum að gera hér, þetta er einmitt skuldbinding.