149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:06]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Síðustu andsvör fóru að töluverðu leyti í að ræða minnisleysi ýmissa stjórnmálamanna og jafnvel flokka. Það er þetta með minnisleysið sem framsögumaður minnihlutaálitsins nefnir. Það geta verið margar ástæður fyrir því og sumar ræður maður bara hreinlega ekki við. Annað mál og kannski öllu verra er eitthvað sem heitir valkvætt minni. Það er þegar fólk dregur upp staðreyndir bara eftir því sem hentar og gleymir öðru af því að jafnvel þó svo að þetta mál hafi komið fyrir sameiginlegu EES-nefndina árið 2017 var búið að vera að vinna að ýmsum lausnum, undanþágum, tveggja stoða lausn, í tíma ríkisstjórnarinnar.

Mig minnir að þáverandi hæstv. forsætisráðherra hafi beinlínis beitt sér fyrir því að tillaga hv. þingkonu, Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, um að taka raforkuflutning til annarra landa út úr tilskipun, úr reglugerð, hafi verið fjarlægð. (SDG: Þetta er ekki rétt.) Það væri auðvitað hægt að halda mjög langa ræðu um meðferð þessa máls. Hún hefur fengið umfjöllun í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum og hefur vakið áhuga þjóðarinnar, sem er gott. En það hafa líka ýmis stór orð fallið í umræðunni og málið hefur á einhvern hátt haft sundrandi áhrif á samfélagið.

Þingmenn eru hins vegar í þeirri forréttindastöðu að vinna beinlínis við það að liggja yfir málum og kynna sér þau. Við höfum aðgang af álitum færustu sérfræðinga í hverju tilfelli, auk þess sem þeir og aðrir sem sýnt hafa málinu sérstakan áhuga, mæta gjarnan á fundi til okkar. Okkur ber því skylda að mæta á þessa fundi og kynna okkur sjónarmið þessa fólks. Ábyrgð okkar þegar um er að ræða flókin og umdeild mál er síðan að halda fram staðreyndum eftir því sem við best getum og eyða staðleysum.

Það sem er kannski sérstakt við þetta mál er að einna mest hefur verið rætt um hluti sem eru alls ekki í innleiðingarpakkanum. Áberandi er að jafnvel hafa stjórnmálamenn haldið slíkum hlutum á lofti og þannig meðvitað eða ómeðvitað kynt undir óöryggi og hræðslu. Það er alls ekki léttvægur hlutur, herra forseti.

Það er auðvitað ekkert nýtt að flokkar skipi sér í fylkingar og takist á um mál en kannski er það sérstakt við þetta mál að þeir sem eru fylgjandi og andstæðir eru, að mér virðist, sammála um grundvallaratriðin, jafnvel þó að innleiðingin snúist ekkert um þau. En við skulum samt fara aðeins yfir þau.

Í fyrsta lagi virðast allir hér sem tjá sig vera sammála því að það sé grundvallaratriði að auðlindir okkar séu í þjóðareign. Númer tvö, að vernda eigi íslenskar orkuauðlindir sem og aðrar auðlindir. Í þriðja lagi, að ágóðinn renni til þjóðarinnar í sem mestum mæli. Í fjórða lagi, að auðlindir eigi að nýta á sjálfbæran hátt þar sem jafnvægi er milli efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra stoða. Loks segja flestir sem tjá sig að eðlilegt sé að þau fáu, stóru fyrirtæki í opinberri eigu sem nýta orkuauðlindirnar að langmestu leyti, verði það áfram.

Þessi samhljómur er í sjálfu sér fagnaðarefni og ekki síst fyrir okkur í Samfylkingunni sem höfum haldið þessu fram frá því að flokkurinn var stofnaður. Það leiðir hugann að því að það er nauðsynlegt að tryggja, þannig að hafið sé yfir allan vafa, hver á auðlindirnar. Þess vegna verðum við að setja okkur auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Ég býst raunar við því að flestir, stærstur hluti almennings sem nú hefur áhyggjur af þessari innleiðingu, mundi líða töluvert betur ef stjórnmálin mundu ráða við það verkefni. Við gætum raunar líka sparað okkar helstu stjórnskipunarfræðingum ótal vinnustundir og mörg spor á nefndasvið Alþingis ef við settum okkur líka framsalsákvæði sem útlistaði mjög skýrt með hvaða hætti Alþingi væri heimilt að taka þátt í fjölþjóðlegu samstarfi.

Hvers vegna það er að þeir sem nú ákafast tala gegn innleiðingu þriðja orkupakkans af sem mestu kappi og halda jafnvel uppi ástæðulausum hræðsluáróðri, segja að við séum að afsala okkur yfirráðum, hafa líka verið helstu andstæðingar þess að við breytum stjórnarskránni, er mér svolítil ráðgáta. Ég skil þá spurningu bara eftir hér í salnum. Við skulum vona að það séu að verða vatnaskil í þeirri umræðu og að það verði þá tekið undir með sjónarmiðum okkar sem höfum sagt að það sé mikilvægt að íslensk orkufyrirtæki eins og Landsvirkjun séu ávallt í opinberri eigu og að þjóðarhagsmunir skuli alltaf vera hafðir að leiðarljósi þegar kemur að auðlindum okkar.

Höldum utan um það sem við erum þrátt fyrir allt sammála um og fylgjum því eftir inn í framtíðina. Þetta eru nefnilega allt mjög mikilvægir hlutir. Ég geri á engan hátt, ekki eina mínútu, lítið úr áhyggjum almennings. Það er full ástæða til að nálgast þessa umræðu af virðingu við það fólk sem hefur slíkar áhyggjur. Það gerum við auðvitað best með því að halda staðreyndum málsins til haga og leiðrétta rangfærslur ef við rekumst á þær.

Þriðji orkupakkinn hefur nefnilega ekkert með þau grundvallaratriði að gera sem ég var að telja upp áðan. Annars væri ég á móti innleiðingu. Margir af færustu stjórnskipunarfræðingar landsins hafa líka gefið álit sitt og allir hafa komist að þeirri niðurstöðu að yfirráðum okkar á auðlindum stafi engin hætta af innleiðingu þessa þriðja orkupakka og að hann sé í fullu samræmi við stjórnarskrá. Sumir, þar á meðal Skúli Magnússon, Davíð Þór Björgvinsson, Kristín Haraldsdóttir og fleiri, segja líka að það hefði verið alveg óhætt án allra fyrirvara.

Ég er sammála því í sjálfu sér. Ég tel hins vegar, sökum þess hversu mikill órói er í umræðunni, hversu miklar áhyggjur fólk hefur af málinu, að það sé út af fyrir sig gott að það verði afgerandi niðurstaða í atkvæðagreiðslu um þetta mál og því er ég á þessu meirihlutaáliti. En ég ætlast auðvitað líka til þess að þingmenn stjórnarinnar, sem bera þetta mál uppi, styðji það allir en noti ekki þingmenn stjórnarandstöðunnar sem skálkaskjól til að búa stjórnarflokkunum til flóttaleið. Það er nokkuð sem ég treysti og trúi á.

Sumt af því sem hér er til umræðu mun ekki hafa nokkur áhrif á Ísland enda erum við ekki beintengd evrópskum raforkumarkaði með fýsískum hætti, eins og margoft hefur verið bent á.

Annað sem um er að ræða hér og er að mínu mati til bóta, lýtur að kröfu um eigendaaðskilnað flutningsfyrirtækja, ítarlegri ákvæðum um sjálfstæði raforkueftirlits og auknum kröfum um neytendavernd og upplýsingagjöf. Stigið er lengra en í síðustu pökkum í upplýsingagjöf og neytendavernd og ég held að allir hljóti að vera sammála um það sé til bóta.

Þá erum við komin að samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði sem falið er samræmingarhlutverk milli raforkueftirlitsaðila. Það er nánar útlistað í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar. Ísland beitti sér á sínum tíma fyrir undanþágum og aðlögun vegna aðstæðna hér á landi. Við beittum okkur ekki fyrir undanþágum á öðru sviði og til þess hlýtur alltaf að verða litið ef við höfnuðum og sendum þetta aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar á hvaða tíma við tókum upplýsta ákvörðun um að gera athugasemdir og til hvaða hluta við litum ekki.

Í ákvörðun þessarar sameiginlegu nefndar er gerð grein fyrir slíkum undanþágum og aðlögunum. Þær snerta m.a. jarðgas, en einnig fékkst undanþága frá sundurgreiningu flutningskerfa frá öðrum rekstri á raforkumarkaði.

Þá er einnig heimilt að sækja um undanþágu frá ákvæðum sem varða aðskilnað dreififyrirtækja, aðgengi flutnings- og dreifikerfa, markaðsopnun og gagnkvæmni, ef íslensk stjórnvöld geta sýnt fram á að vandkvæði séu bundin því fyrir raforkukerfi landsins að taka það upp.

Síðast en ekki síst, sem er kannski það mikilvægasta, var samið um tveggja stoða lausn. Það er lausn sem ég held að við séum öll sammála um að skapi okkur öryggi og ákjósanlega stöðu og er í rauninni betri en ef við værum í tvíhliða samningum, geri ég ráð fyrir. Sumir af þeim sem nú telja að sækja hefði átt um frekari undanþágur og neita að innleiða gerðirnar, sátu sem ráðherrar á þeim tíma sem verið var að undirbúa allt þetta, hefðu á þeim tíma átt að gera það ef þeir töldu á annað borð að okkur stafaði einhver ógn og hætta af þessu. Það finnst mér líka skipta talsverðu máli fyrir trúverðugleika málflutningsins sem við heyrðum hér áðan.

Ég er sannfærður um að það var ekki af hirðuleysi og andvaraleysi sem það var gert, heldur fullkomlega meðvitað, enda vitna þingtíðindi og fréttir um að þetta gerðu menn og konur í góðri trú og sannfæringu. Í mínum huga snýst sú andstaða sem hér er fyrst og fremst um pólitík, að skapa sér pólitíska stöðu og jafnvel að grafa undan fjölþjóðasamstarfi, m.a. EES-samningnum. Mér fyndist miklu heiðarlegra að segja það bara hreint út því að ég óttast ekki umræðu um þann samning. Vissulega hefur hann breyst og við þurfum að vera öflug og jafnvel öflugri í hagsmunagæslu. Samningurinn er líka 25 ára gamall og það væri frekar ógnvekjandi í þeim síkvika heimi sem við lifum í ef hann hefði ekkert breyst. Að við værum að vinna enn eftir samningi sem miðaði við veröld eins og hún var þá. Því að staðreyndin er auðvitað sú að mikið af þeirri vitneskju sem við höfum, margar af þeim ógnum sem við stöndum frammi fyrir og mörg þau mál sem nú eru á dagskrá, voru einfaldlega ekki til staðar þegar samningurinn var samþykktur á sínum tíma. En engu að síður, allt fram á þennan dag, með breytingu Evrópu, með breytingum á heiminum og breytingu samningsins, þá er hann samt sem áður eitt stærsta heillaskref sem þessi þjóð hefur tekið. Þá ætti ekki að þurfa að fjölyrða um að hann breytti Íslandi úr 300 þúsund manna markaði í 500 milljóna manna markað.

Samningurinn hefur búið til vöxt, störf, varið réttindi og hagsmuni, aukið öryggi okkar, verndað umhverfi og gerir okkur kleift að fjárfesta í framtíðinni. Með þessum samningi fengum við Íslendingar frelsi til að nema, til að ferðast, búa og læra hvar sem er í Evrópu. Líf okkar hefur einfaldlega auðgast mjög með þessum samningi. Sjóndeildarhringurinn hefur stækkað og samfélagsgerð Íslands hefur styrkst. Hin frjálsa för hefur líka leitt til mikils sveigjanleika á vinnumarkaði og við þurfum ekkert annað en að sjá tölur sem tengjast hagvexti Íslands á síðustu árum til að átta okkur á því hversu mikinn þátt þessi frjálsa för verkafólks hingað á t.d. í hagvexti landsins.

Núna stöndum við frammi fyrir risaáskorunum; fátækt, styrjöldum, loftslagsógnum og vitum að það er engin leið að ráðast gegn þeim nema með aukinni alþjóðlegri samvinnu. Við erum að halda inn í fjórðu iðnbyltinguna sem hlýðir engum landamærum, þar sem framleiddar eru vörur sem lúta allt öðrum lögmálum en einhver fýsískur hlutur og eru stafrænar. Þá hljótum við að berja í borðið ef okkur finnst vera minnsta vísbending um að hér sé verið að mylja undan möguleikum okkar á því að vaxa, dafna og taka þátt í umheiminum. Við ættum því frekar, herra forseti, að ræða aðeins meira um það sem sameinar okkur en það sem sundrar okkur.

Við eigum ekki að leyfa pólitískum öflum að nota hræðsluáróður til að slá ryki í augu fólks. Við eigum að sporna gegn málflutningi sem byggir á afbökun, valkvæðum sannleika, hálfsannleik og jafnvel á köflum ósannindum sem ala á ótta og fordómum, annaðhvort til að slá tímabundnar pólitískar keilur eða til að grafa undan þessum mikilvæga og dýrmæta samningi.

Því hefur meira að segja verið fleygt hér í umræðunni að Evrópusambandið sé með þessum þriðja orkupakka að ásælast völd, of mikil völd hér á Íslandi, jafnvel yfirráð yfir auðlindum okkar. Slíkur málflutningur er beinlínis hættulegur því að þó að Ísland sé eyland þá er Ísland ekkert eyland og við munum aldrei geta fótað okkur í framtíðarheimi sem byggir ekki á miklu meiri alþjóðlegri samvinnu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Herra forseti. Ég ætla að ljúka þessu hér núna. Ég sé til hvort ég kem í aðra ræðu. En ég brýni fyrir þingmönnum: Vegna þessarar einstöku stöðu okkar, að við erum beinlínis í vel borgaðri vinnu við að setja okkur inn í mál, þá eigum við að gera það, halda sannleikanum á lofti og eyða hálfsannleik og rangfærslum.