149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:24]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni hans ræðu. Ég geri mér grein fyrir að þegar maður á orðastað við hv. þingmann er maður er að tala við formann í norrænum jafnaðarmannaflokki. Slíkir flokkar hafa að mörgu leyti verið ákaflega farsælir í sögunni og rækt sín stjórnmálastörf af mikilli trúmennsku og miklum árangri. Ég velti fyrir mér hver skilningur hv. þingmanns er á hlutverki stjórnarandstöðu í lýðræðisríki.

Ég lít þannig á að stjórnarandstaðan styðji ríkisstjórn á hverjum tíma til góðra verka en hún hlýtur jafnframt að veita stjórnvöldum aðhald. Þess vegna velti ég fyrir mér því gagnrýnisleysi sem mér þykir vera áberandi í máli hv. þingmanns þar sem hann eyðir öllu sínu púðri í að gagnrýna aðra stjórnarandstæðinga sem rækja sitt hlutverk, sitt lýðræðislega hlutverk að sýna aðhald. Þess vegna spyr ég hann: Hvernig stendur á þessu? (Forseti hringir.) Er það bara vegna þess að hv. þingmaður lítur svo á að hér sé verið að stíga skref inn í Evrópusambandið (Forseti hringir.) að hann gengur fram með þeim hætti sem raun ber vitni?