149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:27]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég furða mig á gagnrýnisleysi hv. þingmanns og leiðtoga íslenskra jafnaðarmanna. Það stendur í álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar að það valdframsal sem um er að ræða geti ekki talist minni háttar. Þeir segja, með leyfi forseta: „Þessu má, með einhverri einföldun, líkja við að ESA væri falið vald til að ákveða leyfilegan hámarksafla ríkja á sviði sjávarútvegs.“ Er hægt að hringja viðvörunarbjöllum hærra en þeir gera hér? Þeir segja síðan, með leyfi forseta:

„Af framangreindum ástæðum, og þar sem umrætt valdframsal til ESA lýtur að nýtingu og ráðstöfun orkuauðlinda, verður valdheimildum ESA […] ekki jafnað til áþekkra valdheimilda sem ESA hefur fengið eftir gildistöku EES-samningsins svo sem á grundvelli reglna um fjármálamarkaði, flugöryggi og losunarheimildir.“

Ég spyr: Hvað er það sem skýrir þetta algjöra gagnrýnisleysi hv. þingmanns og leiðtoga jafnaðarmanna á þá gjörð sem hér er áformuð af hálfu stjórnvalda? (Forseti hringir.) Ég hlakka til að heyra hans svar við því.