149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:32]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þingmaður höfum greinilega sameiginlegan skilning á því sem fram kom á nefndarfundum hvað þetta varðar.

Þá langar mig til að spyrja hv. þingmann um þá leið sem Miðflokkurinn hefur lagt til að farin verði, þ.e. höfnun og að málið verði tekið upp í sameiginlegu nefndinni.

Við fengum góða gesti fyrir nefndina til að ræða þetta sérstaklega þar sem Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson Hirst skildu þessa spurningu svolítið eftir ósvaraðri í rauninni og í höndum nefndarinnar. Þetta ræddum við í nefndinni, fengum leiðbeiningar og upplýsingar. Telur þingmaðurinn það vera góða og rétta leið á grunni þess sem samstarfið okkar í EES byggir á? Telur þingmaðurinn að þannig yrði hagsmunum Íslendinga betur borgið eða telur hann að sú leið gæti skaðað hagsmuni Íslendinga?