149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:37]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekkert á móti því og sé ekkert athugavert við að fólk skipti um skoðun. Mér finnst það meðal bestu kosta hvers einstaklings að geta litið í eigin barm og skipt um skoðun. En viðkomandi þarf þá að líta í eigin barm og skipta um skoðun en ekki fullyrða að sagan hafi verið allt öðruvísi en hún var.

Eitt af því fyrsta sem fólk gerir, þegar það kemst að því að það sagði eitthvað, gerði eitthvað eða hugsaði eitthvað sem það hefði ekki viljað gera, er að gangast við því. Ég bara skil ekki að formaður Miðflokksins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, leyfi sér að koma hingað upp og fullyrða að hlutir sem gerðust fyrir nokkrum árum hafi aldrei gerst. Það er það sem ég er að gagnrýna en ekki að menn skipti um skoðun.

Menn hafa skipt um skoðun. Það er flott. Það geri ég mörgum sinnum á dag.